mánudagur, 29. desember 2008

Úrlausn allra mála

Hvernig væri að gera Pál Skúlason að einræðisherra yfir Íslandi?

þriðjudagur, 23. desember 2008

Kjams kjams

Þolláksmessa. Mamma laggði blátt bann við skötuheimsókn í kvöld en hefur boðið vel söltuðum þorski í staðinn og hamsatólg með honum. Vei! :)

laugardagur, 20. desember 2008

Dolli, Robbi og Dabbi

Tuttugu mínútur gengnar í fjögur laugardaginn í dag vatt skosk kona sér að mér þar sem ég stóð á Austurvelli og mændi á Alþingishúsið. Hún spurði mig hvað væri um að vera. Ég sagði henni að vegna efnahagshrunsins á Íslandi í október væri almenningur að mótmæla ríkisstjórninni, biðja hana að víkja og boða til kosninga. Ég sagði henni að þetta væri ellefti laugardagurinn sem þessi skipulögðu laugardagsmótmæli ættu sér stað. -Hvers vegna segir stjórnin ekki af sér? spurði hún. -Ég kem frá Bretlandi og ef fólk þar mótmælir svona trekk í trekk segja ráðamenn af sér. Ég stóð þarna auðvitað einsog bjáni en sagði að lokum: -Ja, ríkisstjórnin ræður öllu og þar af leiðandi ræður hún því hvort hún segir af sér eða ekki. Einhvern veginn minnir þetta mál dálítið á Mugabe og ástandið sem skapaðist í einræðisríkinu Zimbabwe; engin leið að koma kallinum frá. Ég vil samt sem áður í sem minnstu líkja okkar ofgnótt við skort nauðsynja í Zimbabwe en það er merkilegt hvað þjóðarleiðtogar sem sitja alltof lengi verða klikkaðir á endanum, hmmm....

fimmtudagur, 11. desember 2008

Framfarir hrjáðrar þjóðar

Ísland er ótrúlegt land. Tæknin hér er mögnuð. Kannski af því það eru svo margir með háskólagráðu. Hér er bæði heitt vatn sem streymir af fullum krafti úr þar til gerðum sturtuhaus en hann er festur upp á vegg í eins konar klefa svo maður getur áhyggjulaus staðið undir bununni og þrifið sig. Þetta þarf ekki að taka meira en 3 mínútur kannski. Svo er annað að ég þarf ekki nema stjaka við einum takka á viðtækinu mínu og þá ómar Ríkisútvarpið um baðstofuna. Þetta þykir mér magnað!

Þolinmæðufærsla

Hæ. Ég bý á Íslandi. Ég er í lopapeysu. Hallgrímskirkjuturn er með tvö rauð horn. Stundum er snjór. Það er myrkur. Piparkökur eru góðar. Mig langar í malt. Vinir mínir eru skemmtilegir. Græni hlunkurinn er kominn inn í stofu. Mamma er mjög ánægð með það. Mér finnst að ég ætti að fá í skóinn. Ég styð Jóhannes úr Kötlum. Stekkjastaur kemur ekki fyrr en aðfaranótt 13.desember. Ef þið vaknið með eitthvað drasl í skónum 12.des þá er það plat (örugglega mamma ykkar eða eitthvað). Woolworths er að fara á hausinn. Æ æ. Landslag er aldrei asnalegt er fín bók. Ef einhvern langar að koma í heimsókn og lita þá á ég mjög flotta litabók með Pétri og Brandi. Ef einhver á hund þá má hann koma með hann í heimsókn. Ef einhver er sætur og vel gefinn má hann líka koma í heimsókn. Ég tek strætó. Leið eitt. Það kostar ISK 227,27272727272727272727272727273. Það er ágætt. Í gær keypti ég mér pulsu. Í gær sprakk líka bókasafn en ekki í loft upp heldur úr þenzlu. Í Brynju er hægt að kaupa millistykki fyrir enska innstungukló. Ekki í Mál og Menningu. Ónefndir rithöfundar eru ekki mættir í lestur. Ég er enn að bíða. Ég fékk rauðkál og grænar baunir um daginn. Bæ.

laugardagur, 29. nóvember 2008

Sælar verið þið allar góðar vættir.
Nú er ég um það bil að leggja í lítinn verslunarleiðangur í nágrannasveitarfélagið. Þar hyggst ég festa kaup á hvítri skyrtu og pilsi eða buxum í formlegum stíl. Það er ekki laust við að setjist að mér hrollur; iðulega þegar ég er stödd í mátunarklefum Mammons, og skiptir þá engu hvort ég hafi lagt upp með jákvætt hugarfar eða ekki, kemst ég aldrei hjá því að líða einsog skrokkurinn á mér sé bæklaður. Yfirleitt kaupi ég því ekki neitt (nema kannski sokka og nærbuxur) og skríð út með afsökunarblik í augunum yfir því hvað ég sé ógeðsleg. En nú, góðu gestir, liggur mikið við því ég þarf að finna klæðnað fyrir sýningarnar í næstu viku og þar sem í árganginum finnst engin stúlka af minni stærðargráðu ætla ég að skunda inn í Primark, fleygja af mér kápunni, ráðast á fatarekkana einsog gráðugt dýr, máta allar þær tuskur sem ég næ í, rífa og tæta þær helvítis flíkur sem komast ekki yfir mjaðmirnar á mér og öskra með efnistætlurnar í tönnunum: TIL HELVÍTIS MEÐ HIÐ STAÐLAÐA SNIÐ!!! Hlaupa svo alsber fram í búð með mínípils á hausnum og fokking rústa pleisinu... uh, já einmitt, það ætla ég að gera. Jæja, það er best að ég raki mig undir höndunum fyrst.
Ef ég skrifa ekkert næstu viku þá hef ég sennilega verið handtekin. Bæ bæ.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Halló

Sunnudagurinn hér á sambýlinu Grund hefur að mestu farið í iðjuþjálfun. Sumir hafa verið að lita, aðrir að mála og enn aðrir að horfa á sjónvarpsþætti í tölvunni sinni. Það eru vandræðagemlingarnir sem vilja ekki vera með hinum í föndrinu. Bless bless!

Vöruskortur á Bretlandseyjum

Hér sé Guð!
Ég fór út í búð í þeirri veiku von um að þar gæti ég fest kaup á kaffifilterum. Í kaffihillunni sem er vandlega kaffærð í þúsundum tegunda telaufa og instanskaffikorna var þá hins vegar hvergi að finna. Í staðinn keypti ég efnisgóðan eldhúspappír þar sem búið var að hella upp á öll blöðin úr síðustu rúllu. Mér segist svo hugur að kaffifilterasendingin sem var pöntuð þarna 2003 hafi klárast í nóvember í fyrra þegar ég keypti síðasta pakkann.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Gömul tilvitnun

Á þriðjudaginn stóð ég á miðju sviði hringleikahúss skólans og básúnaði: "What we face today is not a crisis of Capitalism, but of Socialism." Hahaha! Brandari í boði ræðuritara Möggu Thatch.

Virðingarleysi...???

Siðferðisþröskuldur íslenzku þjóðarinnar fer lækkandi! Samkvæmt viðtali Gísla Einarssonar við Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, í kvöldfréttum Rásar 1 í gærkvöldi má einkum greina þetta siðferðisfall á ólátum almennings við Alþingishúsið. Hinn sauðsvarti almúgi hópaðist þar að til mótmæla; eggjum, tómötum og skyri var grýtt í húsið og guli grísfáninn var dreginn að húni eitt andartak. Einsog allir vita snýst siðferði og gildismat einkum um hið efnislega (svo sem grjótveggi, egg og efnistuskur) en ekki um rafræna sýndartölustafi og tilfærslu þeirra í sýndarheimi tölvukerfa, afneitun og ábyrgðarleysi. Virðulegi almenningur: "How very dare you?!"

föstudagur, 7. nóvember 2008

Af gömlum siðum og nýjum

Halló. Í dag sat ég yfir enn einum fyrirlestrinum á hversu viðbjóðsleg kynfæri kvenna eru. Ég var líka spottuð óþarflega mikið fyrir að hafa gert mér dælt við ungan mann á skemmtan um helgina. Ég íhugaði meira að segja að biðjast afsökunar á framferði mínu... Mér finnst stundum einsog hlutirnir séu ekki alveg einsog þeir ættu að vera. Mamma, þú hebbðir átt að taka þér tvo frídaga þarna '75.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Mannréttindi ofalinnar kynslóðar

Mér finnst áhugavert að núna þegar samfélag stendur hugsanlega (vonandi) á tímamótum varðandi gerð sína og þegnar þess yfir og undir miðjum aldri fyllast reiði vegna spillingar og annars óréttlætis í þeirra garð þá hafa jafnaldrar mínir mestar áhyggjur af því að geta ekki sér að kostnaðarlausu horft á bandaríska skemmtiþætti í sjónvarpinu.

Kamúflasj

Þetta var nú meiri ósvífni hérna fyrr í dag kæru vinir. Ég bið ykkur að afsaka. Ég ætti nú heldur að reyna að vera pínulítið skemmtileg. Jæja, ég get sagt ykkur það að í fyrradag sá ég pöddu sem leit út einsog hluti af trjágrein. Ég get svo svarið það! Ég hélt ég væri bara komin inn í heimildamynd eftir David Attenborough en hvert sem ég leit sá ég karlinn hvergi, aðeins gáttaða sambýlinga mína sem stóðu með mér í andyri fjölbýlishússins og göptu. Nei, þetta var nú ekki alveg svona spennandi en, engu að síður, það skemmtilegasta sem komið hefur fyrir mig eftir að ég steig fæti á keltneska, eða sexneska eða hvaða nú annars er, jörð.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

XXX

Kvenleikinn er ekki gefins, hann fylgir ekki kyninu. Það þarf að læra hann, þjálfa sig í honum, sennilega alast upp í honum líka en það er ekki nóg. Það þarf að kaupa sér hann, klæða sig í hann, setja hann á sig, jafnvel sprauta honum í sig, skera sig upp til þess að koma honum fyrir. En þetta vitum við jú öll, er það ekki?

Ef þú klæðist víðum gallabuxum og ert ekki grönn þá ertu samkynhneigð.
Ef þú málar þig ekki á hverjum degi þá ertu samkynhneigð.
Ef þú flissar ekki og skríkir og fleygir þér í fang stráklinga þá ertu samkynhneigð.
Ef þú berð kynjaréttindi fyrir brjósti á óáberandi hátt þá ertu samkynhneigð.
Ef þú býrð yfir einhvers konar gáfum þá ertu ógnun við Mannkynið og hlýtur að vera samkynhneigð.

Konur eru ekki fyndnar.
Gaurar eru fyndnir.
Grínþættir sem gaurar semja og eru í eru fyndnir og ef þér finnst það ekki ertu leiðinleg.

Takk fyrir kosningaréttinn, takk fyrir menntaveginn, takk fyrir hið opinbera líf.

þriðjudagur, 21. október 2008

Jóla jóla...

Ó nei! Það er ófremdarástand í íslenzkri verzlun. Það fæst ekki gjaldeyrir til kaupa á jóladrasli frá Suð-austur Asíu. Haft er eftir verslunarstjórum að það verði VÖRUSKORTUR fyrir jólin. Ég skal leggja mitt af mörkum og senda þeim foreldrum sem ég þekki jóladót til að lauma í skóinn. Ja, hver fer nú að kaupa geit handa einhverjum afrískum greyjum meðan við höfum það svona skítt!

þriðjudagur, 7. október 2008

Neyðarkall!!!

Félagar, það er á ögurstundu sem þessari sem ég leita til ykkar. Okkar sambönd hafa, einsog önnur, verið upp og ofan. Samskiptin hafa verið mismikil og skoðanir skiptar. En eitt höfum við þó átt, og það er vinátta. Við höfum hjálpast að, rétt hvert annað við og stappað í hvert annað stálinu. Því er það nú að ég leita til ykkar, kæru vinir, eftir stuðningi. Þegar hart er í ári leita vinir jú hver til annars. Þegar kuldinn sækir að þjappar fólk sér saman og veitir hvert öðru yl. Þegar á móti blæs tökum við höndum saman og berjumst gegn storminum. Í ljósi fjárhagsörðugleika þjóðar vorrar kreppir skóinn að hjá okkur sem erlendis dveljum. Skólavist okkar er í hættu vegna gengishruns undanfarinna daga svo og framtíð okkar öll. Því er svo komið að við sambýliskona mín óttumst um búsetu okkar. Það er að hennar áeggjan sem ég teygi hönd mína út til ykkar nú og bið um aðstoð. Til að gera okkur kleyft að dveljast á heimili okkar hér í Lundúnum vantar mig mann sem vill gangast við mér, deila með mér rúmi og okkur tveimur íbúð og greiða þar með þriðjung leigukostnaðarins. Félagar, ég geri mér grein fyrir því að þessa bón er ekki auðsótt að uppfylla. Ég geri mér grein fyrir því að mikla fórnfýsi þarf til að slíta sig úr faðmi fjölskyldunnar heima á Íslandi og flytja landa á milli. En ég geri mér líka grein fyrir því að ávinningurinn mun ekki standa fórninni að baki. Félagar, mig vantar neyðarkarl!

sunnudagur, 5. október 2008

Lífsins lystisemdir

Pjúff!... ég hef aðeins róast síðan á föstudaginn. Pantaði næstum því pitsu og allt. En hvað um það. Kaffi og pönnsur, Stefán Íslandi, Þingvellir uppi á vegg og krossorðaspilið loksins komið í notkun... er eitthvað meira sunnudags? Við fengum meira að segja gesti og áttum kók og smákökur handa þeim. Það þarf sérstaka gráðu til að fá viðurnefnið "ömmurnar"...

föstudagur, 3. október 2008

Slíðrum ei sverðin!

Kæru Íslendingar! Stund austurfarar er runnin upp. Pakkið saman þeim föggum ykkar sem þið komið ekki í verð, rifjið upp dönsku sagnbeygingarnar og húkkið ykkur far austur á Seyðisfjörð því skipið er að leggja frá bryggju. Tíminn er komin er við, hraustmenni norðursins, leggjumst í víking á ný, nemum ný hálendi á gengisbetri slóðum og byggjum upp skandinavískt samfélag jafnaðar og bræðralags. Lengi lifi Noregur! ....sorrí, missti mig aðeins þarna. En allana, þá var ég að skylmast með sverði í skólanum um daginn. Ógisslea kúl!

Ludvigs Davids

Ég hef átt við bloggstíflu að stríða undanfarið. Hef setið með tölvugreyið í kjöltunni með autt sýndarblað fyrir framan mig og starað nautheimskum augum inn í hvítuna. Vandamálið er að ég hef verið svo fjandi jákvæð síðustu daga og vikur. Þetta nær engri átt. Hvurnin í andskotanum á manni að blása í brjóst ef maður er hamingjusamur? Það er bara ekki hægt. Ef eitthvert skáld andmælir þeirri staðhæfingu er næsta víst að þar sé leirskáld mikið á ferð. Já! En ég hef sum sagt verið svona fjandi ánægð með lífið og tilveruna, allt verið í stakasta lagi enda ekki annað hægt þegar maður er kominn á bleikar pillur í stað hvítra. Það gefur auga leið að þær virka miklu betur. Nú hafa borðin hins vegar snúist (djók! þetter enskt orðatiltæki þúst)...nú hefur dæmið hins vegar snúist við vegna kreppunnar ógurlegu, sem er skal ég segja ykkur Íslandsbúar, raunveruleg kreppa fyrir okkur landflótta aumingjana. Skólagjöldin eru komin upp í tæpar 2 millur árið, leigan hækkað um 20 þúsund kall og ekki einu sinni hægt að fá kaffibæti lengur. Svei mér þá!

Endur

Hægan hægan. Listin ku aldrei blómstra meir en á tímum fjárhagsþrengsla. Ég á því von á að andi minn rísi úr viðjum slens og transfitusýra, vaxi og dafni innan um íslensku meðbræður sína, (veit ekki hvort andar hafi þjóðerni, ég held að passinn minn sé stílaður á skrokkinn) nærist á lofti, kölkuðu vatni og hafragraut þangað til hann nær fullkomnun sinni. Já, kæru vinir, við skulum ekki örvænta. Af fjárhagskreppum getur aðeins hlotist eitt: andlegur þroski.... Þetta er í rauninni allt svo fallegt... Díses, ég er farin að horfá OC.

Skórinn sem kreppti að...

Undanfarna daga hef ég verið að stúdera ræður og ræðutækni í minni miklu akademíu. Hvaða tækni nota leiðtogarnir til að sannfæra líðinn? Hvernig haga þeir orðum sínum til þess að róa almúgann? Hvernig vinna þeir traust okkar? Mér varð því heldur betur bruggðið í morgun, eftir að hafa dröslað tölvunni í gang til þess að hlusta á morgunútvarp Rúbbans, við að heyra upptöku af Haardinum, okkar mikla leiðtoga, frá því í gær þar sem hann með djúpri, áhyggjuþrunginni en stillilegri rödd fullvissaði þjóð sína um að þetta yrði allt í lagi. Pásur á stöku stað til að gefa orðunum meira vægi, hrynjandi, ryþmi; ÉG KANN ÞETTA ALLT GEIR!!!! Það var á þessu augnabliki sem ég hrifsaðist úr svefnrofunum, það var þá fyrst sem ég áttaði mig á ástandinu: ÞAÐ ER KOMIN KREPPAAAA!!! FOOOOOOKKKKKKKK! .... ég á eftir að breyta íslensku dótapeningunum mínum í hið þunga breska pund....

sunnudagur, 28. september 2008

Tilkynning

Auður er uppáhalds vinkona mín. Fyrir því er ein einföld ástæða. Hún sendi mér pakka um daginn. Þau ykkar sem hafið áhuga á að reyna að bæta ímynd ykkar gagnvart mér vinsamlegast sendið pakka (má svo sem líka vera kort eða bréf) á heimilisfangið:

8 Julian Court
12 Granville Road
DA14 4DP
Sidcup
Kent
UK

stílaðan á mig.

mánudagur, 22. september 2008

Dagar og nætur í millilandavolki

Góðan daginn elskurnar mínar. Í dag er fallegur dagur þó í reynd sé komin nótt. Í gærdag hélt ég í siglingu, og í dag mætti segja að ég sé orðin ansi sigld. Einkum og sér í lagi eftir að hafa dröslað 40 kílóunum mínum, (útbyrðis) í gegnum Lundúnaborg þvera og endilanga, bölvandi, grátandi og slefandi, og mátti ég nú bara þakka fyrir það að vera ekki pissandi líka. Ekki veit ég hvaðan þessi þyngd kom öll sömul en hugsanlegt er hér hafi ab-flex tækinu mínu verið um að kenna sem og íslenzku ógerilsneyddu mjólkinni sem ég fékk í lítravís hjá Jóni bónda á Hóli í Subbuflóasveit norður í Tittlingaskít áður en ég lagði í hann. Jæja, nóg um það. Þetta er allt saman búið og gert. Í hinum mikla Sjittara var allt við sama heygarðshornið; Fólk að bíða eftir strætó, fólk að borða hamborgara, fólk að kaupa tómata, því nú fæst afar fín uppskera þeirra Englendinga í helztu verzlunum á svæðinu, og fólk á gangi með plastpoka. Já þið sjáið nú hvað mannlífið getur verið fjölbreytt. Bæ!

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

G g g g góðann daginn. É é ég heiti Gggg Ggg Gudda

Stamdrottning Norðurlanda er lent og búin að baða sig uppúr kamfórum í allan dag. Þvílíkt lán að vera þeim kostum búina að kunna að stama almennilega og fá styrki til þess að fljúga til Norðurlanda í stamselskap mikla og stama þar lon og don í 3 sólarhringa við gamla vini og nýja. Að maður tali nú ekki um alla norsku gönguskíða stamarana. Jæja, en stamdrottningin hafði það jätte bra í konungsríkinu Svíþjóð þar sem hún hitti meðal annars elg, úlf, Emil í Kattholti og systur sína. Fundurinn við Emil var hið mesta þarfaþing þar er vínylleikgerðin í leikstjórn Helgu Jóns er óvirk eftir að gamli Dualinn hennar mömmu gaf sig. Nú mun hins vegar sænsk útgáfa sama verks, með lestri sjálfrar Ástríðar, stíga á stokk, stytta marga stundina og lina mestu þjáningarnar. Smiðjukofi hoppfallíla!

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Af góðbókmenntum

Brotabrot úr Sýslumannsdótturinni eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri 1961. Bls. 54-55:


Síðustu geislar sólarlagsins roða sveitina, er Gunnar og Elsa stöðva gæðingana heima á hlaðinu á Grund og stíga af baki. Hið fyrsta sameiginlega ferðalag þeirra er á enda. Elsa strýkur reiskjóta sínum blíðlega um stinnan háls og makka að skilnaði, og réttir svo Gunnari höndina.
"Ég þakka þér fyrir hestlánið, Gunnar. Þetta var yndisleg stund," segir hún næstum hvíslandi.
Gunnar tekur þétt um hönd hennar. "Það gleður mig að þú hefur notið hennar, Elsa." Handabandið rofnar ekki, augu þeirra mætast, engin orð eru sögð, en þögnin í djúpi augnanna talar sínu máli. Þau standa um stund sem í draumi, en svo áttar Gunnar sig og sleppir hægt hönd sýslumannsdótturinnar. Hann hefur ef til vill of lengi notið snertingar hennar, því hann er aðeins kaupamaður á Grund...

mánudagur, 11. ágúst 2008

Brjóstumkennanlegur skrokkur

Ég er með misstór brjóst. Ég komst að því fyrir réttum 5 dögum síðan eftir að hafa háð stríð við margan haldarann í áraraðir. Misjöfn sál í misstórum líkama. Ég vil nú ekki meina að það sé of persónulegt hjá mér að brydda upp á þessu máli hér þar er ég vænti þess að mitt vina- og venslafólk hafi nú þegar áttað sig á þessu lýti. Bæklun sem þessi ku vera ansi algeng meðal kvendýra og því spyr ég: Er ekki hægt að fá "Build a Bra"-verslun til landsins alveg einsog "Build a Bear"? Í stað þess að velja sér dýraham og fylla hann nælontroði gæti maður valið sér stakar brjóstahaldaraskálar með því sniði og efni sem best fellur manni í geð, látið þar til gerðan starfsmann troða vatnsfyllingu, sílíkonfyllingu, svampfyllingu (ef maður er púkó) o.s.fr. í þetta og tjasla svo draslinu saman. Kannski væri líka hægt að láta setja munúðarfull ilmefni í haldarana, einkum þau er hafa afródísk áhrif, þó sennilega væri skynsamlegra að geta valið ilmefni eftir hentugleik hverju sinni s.s. afródísk ilmefni á tennisvöllinn, metangaslykt þegar maður er á gangi um nótt yfir Landakotstúnið, karlmannsilm á hommaklúbbana og svo mætti lengi telja. En nóg um það að sinni.

föstudagur, 25. júlí 2008

Dagur og vegur í frjálsu landi

Alheimurinn er aftur orðinn minn. Í þessu hléi mínu frá ástþyrstum gamalmennum og lesblindum börnum hef ég aftur ritstörf mín á þetta alþjóðasvæði. Íslenska fjallaloftið hefur gert mér mikið gott og er ég nú öll að fríkka og andinn laugar sig í frelsi íslenska vindsins. Já já. Martraðakenndar hugsanir skjótast upp í kollinn stöku sinnum, hugsanir um krákur, flapjakka, enska prinsa, hnífstungur, magaboli og alla þá dýrð aðra er einkennir vetursetu mína. Í örvæntingu minni reyni ég af bestu geta að bægja þessum óboðnu gestum frá, hunsa framtíðina og einbeita mér að ísbjarnadrápum, Héðinsfjarðargöngum, Guðrúnu frá Lundi, jeppaeign og öðrum indælum hlutum.

sunnudagur, 29. júní 2008

Laugardagurinn tuttugastiogáttundi júní tvöþúsundogátta

Hæ. Í dag vaknaði ég klukkan eitt og fékk mér morgunmat. Svo fórum við mamma til London og fórum í stóra bókabúð og mamma keypti eina ferðabók og eina kortabók. Svo fórum við á markað á Piccadilly, sko götunni en ekki torginu, og þar sáum við mikið af flottu dóti. Svo keyptum við okkur nesti á kaffi Neró og fórum með það í Hyde Park. Síðan löbbuðum við lengi um Hyde Park garðinn og sáum dúfur og íkorna og fullt af konum í búrkum. Það var gaman. Svo löbbuðum við niður alla Sloangötu, alveg niður að Sloan square sem er sko torg og þar er rosalega mikið af flottum búðum einsog Gucci og Dolce og Gabbana og dyravörðum í kjólfötum í búðunum sem opna dyrnar fyrir fólkinu. Svo tókum við mamma tubið sem er sko neðanjarðarlestin 4 stöðvar til Embankment og þar fórum við á ítalskan veitingastað sem heitir La Piazza og fengum okkur pitsu. Mín var með reyktum laxi og klettasalati en mamma fékk pitsu með kjúklingi og sveppum. Svo fórum við heim. Bæ.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Carmen í kjörklefanum

Það er kominn júní tralalalala! Fyrir löngu síðan tralalalala!
Þið sem ætla að stelast á Hala án mín skemmtið ykkur vel. Ég vona að þið fáið gott veður. Hér er einnig ágætis veður og hljóðar spáin fyrir morgundaginn einhvern veginn svona: Sólskin með hléum, 20°c (12°c að næturlagi), vestanvindur; 15 mílur á klukkustund, rakastig 37. Þarna hafiði það.
Ég er að hlusta á Söngvaseið. Söngkennarinn minn vill að ég einbeiti mér að söngleikjalögum sömdum á árunum frá 1920-1960. Ég á með öðrum orðum að hætta að vera asnaleg og byrja að vera sæt. Það ætti ekki að vera vandkvæðum bundið þar sem ég er afar lagleg í grunninn. Ég ætla að redda mér Carmen-rúllusetti og fölbleikum varalit og þá get ég byrjað að vera dálítið eðlileg einsog stúlkan sagði. En ég get nú sagt ykkur það að ég er komin yfir erfiðasta hjallin því ég er farin að ganga á hælháum skóm. Þetta er svona í bransanum sko, koma þarf að vera fær um ýmislegt. Hælaskórnir mínir eru 3cm háir og Áslaugu finnst ég vera einsog belja í þeim, en hún getur nú líka bara.... tekið þau ummæli aftur þegar hún sér mig stræda um í karekterskónum.
Með allan þennan líka fína tilbúna kvenleika í farteskinu óska ég ykkur, mannkyninu öllu, til hamingju með daginn sem byrjar eftir 56 mínútur. Lifi kosningarétturinn!

mánudagur, 9. júní 2008

Framtíðardraumar

Ég get sko sagt ykkur það, kæru landsmenn, að hér á Englandi eru sjálfsalar í sumum matvöruverslunum. Þetta er svo móðins hérna að ekki er nóg með það að hægt sé að lána sjálfum sér bókasafnsbækur einsog ýmis mæt bókasöfn föðurlandsins hafa að vísu tileinkað sér heldur fær maður sjáfur að tína plastklædd matvæli uppúr körfunni sinni (bara fyrir körfufólk) og láta sjálfsalann segja "bíb" við þau áður en maður síðan stingur þeim ofan í plastpoka. Þetta kalla ég módern.
Nú veit ég ekki hversu mörg ykkar muna eftir vigtunum góðu í ávaxta & grænmetisdeildum stórmarkaðanna hérna í denn. Mér er að minnsta kosti í fersku minni spennan sem skapaðist í barnshjartanu mínu þegar innkaupakarfan með mömmu aftaní nálgaðist grænmetið, óvissan um hvort grænmeti yrði yfir höfuð keypt þann daginn, léttirinn þegar Hófí systir var ekki með og ég, tatata...stóð ein að takkaborði grænmetisvigtarinnar! Meðan mamma týndi gulu eplin til í poka stóð ég hjá einsog gammur, tilbúin að hrifsa af henni pokann og skellonum á vigtina. Ef Hófí var með í för var um að gera að vera snögg og finna fokking gulueplatakkann áður en neglurnar á Hófí komust í hann...minn poki, minn takki!
Úff, sorrý hvað ég varð spennt yfir þessu, en sum sé: sjálfsalarnir í Mark's & Spencer og félögum gera það sama fyrir mig og vigtin í grænmetinu forðum daga; þeir láta mér líða einsog ég hafi tilgang, einsog ég sé einhver. Þeir láta mér líða einsog ég sé BÚÐARKONA.

laugardagur, 31. maí 2008

...hvað er betr'en að dansa?

Góðir hálsar!
Heyrst hefur að ég sé á leiðinni til Íslands. Orðið á götunni er að ég muni lenda um miðnætti 1.júlí og verða á landinu bjarta fram í september. Þar sem ég ku ætla að ala konuna á öldurhúsum Reykjavíkur einhvern hluta sumars er vert að benda á að opnað hefur verið fyrir skráningu á danskortið mitt. Að þessu tilefni vil ég benda þeim einstæðum körlum sem þrífa sig á þetta frábæra tækifæri og hvet ykkur eindregið til að hafa samband. Fyrirspurnir (mál og annað) sendist á netfangið mitt: kussimalli@hotmail.com

Venjuleg kona

Góðan daginn. Þessi bloggfærsla er skrifuð af konu sem lítur út einsog venjuleg kona.

Ég leit í spegilinn um daginn og uppgötvaði að ég leit út einsog venjuleg kona. Sérstaklega þegar ég var komin í venjulegukonu fötin mín sem ég keypti í verslunarmiðstöð sem venjulegar konur fara í, um daginn. Ég lít ekki út einsog fífl, þó ég geri mitt besta til að viðhalda útliti mínu þannig, ég lít út einsog venjuleg kona. Fólk sem kannski mætir mér á götu og þekkir mig ekki gæti hugsað sem svo þegar það sér mig: "Nei, hvað er að sjá, hér er venjuleg kona á gangi."
Sei sei.

Ef ég sé með hattinn...

Nú þar sem ég hef fengið fyrirspurn um að skrifa meira þá ætla ég að skrifa meira.
Í dag sagði ég: "...ég hef setið í þvottavél". Óskiljanlegt, ég veit, en þarna var útlægi og allsgáði heilinn minn að verki. Ég setti nebblea í vél þear ég vaknaði sko. Ó mæ god, og ég fattaði ekki vitleysuna fyrr en sambýliskona mín benti mér á hana... Ég þarf aldeilis að gangast undir málfarsdáleiðslu áður en mútti kemur í heimsókn. Hún á aldrei eftir að fyrirgefa mér ef ég læt einhverja svona bölvaða vitleysu útúr mér aftur...!!!

þriðjudagur, 20. maí 2008

Sætaferðir að Hljómskálanum til fundar við Jónas Hallgrímsson

Hæ. Snillingur að nafni Tinna Þorvaldsdóttir sagði eitt sinn: Því gáfaðri sem þú ert, þeim mun erfiðara er lífið. Þótti mér vel mælt þar sem ég var stödd mitt í hundraðþúsundmilljónustu tilvistarkreppunni minni í morgun. Henni lauk stuttu síðar, eða fyrir klukkan ellefu og gat ég notið því þess sem eftir lifði dags einsog eðlileg manneskja, keypt mér bounty og samloku útí búð og gantast við bekkjarfélagana. Er lífið ekki yndislegt... Jæja, einsog ekki hefur farið framhjá ykkur lesendur góðir hef ég aðallega fengist við sjálfa mig á þessu bloggi. Ég ég ég ég ég. Ég hef ekki leitast við að koma annars mikilfenglegum skoðunum mínum á framfæri, ég hef hvorki rætt guð né heiminn, ég hef algjörlega hunsað göfugar vangaveltur og valið fremur að velta mér uppúr mínum eigin skít. Póstmódernískt wank. Er það ekki það sem okkur hinum athyglibrostnu fíflum nútímans finnst smart, Hugleikur Dagson og allt það. Hvar er listin? hvar er rómantíkin? Fegurðin hefur læðst út meðan við vorum upptekin við að háma í okkur eigin skít... eða þúst eitthvað. Mér er alveg sama.
Föstudagskveldið síðastliðið fann ég sjálfa mig aftur í leigubíl þar sem ég myndaðist við að skvetta ekki uppúr opinni vínflöskunni sem stóð skorðuð milli læranna á mér, umkringd unlingum sem skökuðu sér við útþynnt háskólarokk sem barst úr bílgræjunum á fullu blasti. What is my life like?

fimmtudagur, 15. maí 2008

Ástarmök

Í dag fluttum við Tinna söngleikjalagið okkar fyrir kennara og samnemendur. Allir hrósuðu okkur fyrir búningana okkar... sem voru í raun bara fötin okkar..., nema Tinna var með pissublett.
Klukkan er hálf tvö og því ekki nema um ein og hálf klukkustund í að íkornarnir byrji að eðla sig fyrir utan gluggann minn. Það er eina rökrétta skýringin sem ég get fundið á þessum skrækjum sem ég heyri um miðjar nætur, eða er ég bara orðin svona klikkuð, farin að láta mig dreyma um íkorna og unga drengi... ég vissi að ég hefði átt að kýla á nagdýraaðgerðina þarna í fyrra...

mánudagur, 12. maí 2008

Óblíð örlög

Sjáiði hvað ég er orðin ógeðslega ósmekkleg, jiii segi ég nú bara á innsoginu. Svona ætla ég að vera alla vikuna.
Það er búið að setja mig í Heddu Gabler. Á morgun kemur í ljós hvurja kvensniptina ég verð látin leika. Ef heppnin verður með mér verð ég í titilhlutverkinu í lokasenunni og fæ að skjóta mig í hausinn, hahaha!
Vona að ég hafi ekki eyðilagt endann fyrir neinum...

laugardagur, 10. maí 2008

...allt gullið sem ég á.

Í dag var síðasti dagur stundatöflu fyrsta ársins míns í þessum skólaræfli sem ég sæki á hverjum degi... næstum því hverjum degi. Ja hjarna, Gudda bara að verða stór, sem er hverju orði sannara því það er ekki laust við að hún stækki með hverjum deginum sem líður. En þetta gerist auðvitað með aldrinum, um að gera að vera dálítið búsældarleg svo maður fari nú að fá einhver bónorð. Heyrið þið það þarna úti! Ég kann að elda og baka og prjóna og hekla og vökva blóm og svo var ég að læra að fara í kollhnís (bæði afturábak og áfram) núna í vikunni svo hér er ekki komið að tómum kofanum. Komdu inn í kofann minn er kvölda og skyggja fer.... hehehe

mánudagur, 5. maí 2008

Halló í deildinni!

Heilir og sælir kæru landsmenn, nær og fjær. Sumir ykkar eru nær, og er það vel. Aðrir kjósa að halda sig í hæfilegri fjarlægð og er það miður og eykur möguleikann á vinslitum til muna. En tölum ekki um það. Tölum heldur um hitabylgjuna sem hefur gengið yfir Kentskíri síðustu daga. Í gær gengum við Tinna naktar um heima hjá okkur vegna mollu (ég gæti verið að færa örlítið í stílinn hér) og í dag hefur sólin slegist í lið með hitanum og ákveðið að gefa okkur þann fallegasta sumardag sem um getur hér í sveitinni síðan í lok september, uhhh já.
Allana þá eredda geeikt.
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga trallala og jibbíjeij!

miðvikudagur, 30. apríl 2008

"I fhink vha..."

Hæ hó kæri verkalýður! Á morgun syngja fuglar, á morgun grær grundin, á morgun skín sólin því ykkar stund er upp runnin. Ég á von á því að innflytjendur og chav-arar séu hvað fjölmennastir í verkalýðsstétt nútímans, en svona plebbar með fartölvu sem ganga í skóla einsog ég séu nú ekkir alveg gjaldgengir í göngurnar. Hvað þá í vöfflukaffið á eftir.
Til skýringar þá er chav-fólkið það sem við könnusmt við sem "white trash"-liðið westan hafs, Vicky Pollard og og fleiri góðir. Nú svo eru það innflytjendurnir sem Breski þjóðernisflokkurinn vill ólmur senda úr landi, ekki bara innflytjendurna sjálfa heldur einnig börn þeirra barnabörn og barnabarnabörn, í stuttu máli sagt allar kynslóðir síðan að þau stigu fæti á þetta guðsvolaða land. Þetta á vitanlega einungis við um fólk sem er dökkt á hörund því það sést jú ekki eins mikið á okkur bleiknefjunum.
En það vill svo til að ég þekki nokkrar manneskjur sem eru dökkar á hörund, og einnig þekki ég nokkrar sem eru ljósar á hörund, heldur fleiri þó. Í ljósi náms míns í RP (received pronunciation), sem er eins konar grunnhreimur ensku, sá sem enn er notaður á BBC, þá þykir mér skemmtileg staðreynd að dökku vinir mínir tala flestir með afar fínum hreim, ansi nálægt RP, en margir hinna ljósu vina minna geta ekki myndað hljóðið "th" (þ í íslensku) og notast því við "f" í staðinn. Skemmtileg staðreynd sem á einmitt við bekkjarsystur mína og stuðningskonu Breska þjóðernisflokksins.
Á Wikipedia rakst ég á þessar tölur um ýmissa þjóða kvikindi á Íslandi:

984 Þjóðverjar
966 Danir
743 Filippseyingar

Helvítis Þjóðverjarjarnir eru að sölsa undir sig landsbyggðina og íslenska hrossarækt! Svo kaupir þetta allar lopapeysurnar svo ekkert er eftir handa okkur hinum, hnuss!

sunnudagur, 27. apríl 2008

Bráðum kemur betri tíð tralala...

Þau gleðitíðindi bárust ensku kvenþjóðinni til eyrna að vorið og gott ef ekki sumarið bara er komið til landsins. Þetta merkir hjaðnandi blöðrubólgu og minni fjárútlát í sýklalyf og trönuberjasafa. Ætli hann hækki ekki í verði?

laugardagur, 26. apríl 2008

Auknir atvinnumöguleikar og tjáningarfrelsi

Listmenntaskóli og hana nú. Þetta þykja mér fréttir. Það er ýmislegt að gerast á landinu bláa þó maður sé fjarverandi.
Ég er aftur byrjuð að sprikla, Bramleyinn er staðráðinn í að koma okkur nemendalufsunum í form eftir überpáskafríið og hefur nú þegar tekist að knýja fram ósköpin öll af svita, blóðþrýstingi og tárum. Ég var svo sárfætt eftir tímann í gær að ég kjagaði heim einsog mörgæs, hangandi í Tinnunni minni.
Smellti mér inní London með Bru-krúinu á Evróvisjónglaðning mikinn. Sá glitta í Friðrik og Regínu. Ji, hvað þau eru alltaf smart.
Komst að því í vikunni að ég er hætt að geta tjáð mig í orðum (nema þegar ég þarf að troða skoðunum mínum yfir á mömmu) og er þess í stað farin að eiga samskipti við heiminn með hreyfingum og (ó)hljóðum. Skelfilegar fréttir fyrir óskrifuðu ritgerðina sem ég átti að skila í síðustu viku, úps!

mánudagur, 21. apríl 2008

Banging in the Nails

Enskt leikhús hefur verið markaðsvætt frá upphafi. Það útskýrir ýmislegt...
Á morgun á ég að fremja andlitsdans einhvern tímann á milli kl.15.30 og 17 að enskum tíma. Æfingar þessar lýsa sér þannig að fremjandinn setur lag að eigin vali á fóninn, tekur sér stöðu fyrir framan áhorfendur og hreyfir síðan á sér andlitsvöðva sem og tungu í takt við mússíkina. Já vinir mínir, þetta er "serious stuff" sem ég aðhefst hér í útlegðinni. En ekki væri athöfn þessi í frásögur færandi nema vegna alveg hreint frábærs lagavals míns. Ég hvet ykkur til að hlusta á þetta einkar óviðeigandi lag hér (ekki fyrir viðkvæma þó):

http://www.tigerlillies.com/2003/index.php?main=recordings&trackId=9

Sem betur fer er kristna stelpan í hinum hópnum...

laugardagur, 19. apríl 2008

Enn líður og bíður

Galvösk hlunkaðist ég framúr rúminu í gærmorgun, boðin og búin að mæta á trúðanámskeiðið niðri í skóla. Sauð grautinn, fékk mér appelsínusafa, tróð linsunum í augun og skellti mér í jogginggallann, til í tuskið. Hjassaðist niður í skóla: Computer says no... Einhver snillingurinn hafði ákveðið að breyta námskeiðinu eða þá að fokking kennarinn mætti ekki eða fokking eitthvað annað álíka gáfulegt! Plongarinn varð svo leiður að ég mátti hafi mig alla við að hugga hann það sem eftir lifði dags :(

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Heimþrá

Reikult er rótlaust þangið,

rekst það um víðan sjá.

Straumar og votir vindar

velkja því til og frá.

Fuglar flugu yfir hafið

með fögnuði og vængjagný,

- hurfu út í himinblámann

hratt eins og vindlétt ský.

Þangið, sem horfði á hópinn,

var hnipið allan þann dag.

Bylgjan, sem bar það uppi,

var blóðug um sólarlag.

Jóhann Sigurjónsson

Kauphallirnar á Canary Warf eru nýja Esjan mín, þær eru það eina sem stingst upp úr flatneskjunni fyrir utan gluggann minn. Ji hvað lífið er táknrænt!

Gott kvöld

Svaf yfir mig í gær og missti af magadansinum. Vann það upp með því að borða 2 bláberjamúffur (bæta við magann, dansa seinna).

Í dag reyndi Capoeira kennarinn að drepa mig...með alltof erfiðum æfingum....

Rógburður

Ég biðst velvirðingar á því að hafa logið því að fólki að Gerður G. Bjarklind væri stödd á Kanarí. Þetta var óvitaskapur af minni hálfu og bið ég hér með forláts. Hið rétta er að Gerður er stödd á Gíbraltar, en þar hefur hún dvalist undanfarna mánuði einsog dyggir aðdáendur hennar gera sér fullkomlega grein fyrir. Ég þakka móður minni fyrir að hafa leiðrétt þennan leiða misskilnings og hlakka til að fá Gerði aftur í Óskastundina.

mánudagur, 14. apríl 2008

Þemavika!

Ja hjarna, það er þemavika í skólanum, minnir ansi mikið á Lagningadagana góðu í MH hérna í denn. Algjör back to college fílingur... nei heyrðu mig nú: I'm still in college...
Ég verð sem sagt í jóga og magadansi alla morgna þessa vikuna enda komin með ansi fína bumbu í dansinn.
Á miðvikudaginn á að skella sér í Capoeira
og svo á föstudaginn er loksins komið að því.... Plongarinn kemst á TRÚÐANÁMSKEIÐ!!!!
:)

Samhæfing hins huglæga og hins hlutgerða

Kom að sjálfri mér þar sem ég kraup yfir fartölvunni á klósettgólfinu á leiðinni með hana í bað... Er eðlilegt að þróa með sér netfíkn á 2 sólarhringum?

Ég er komin með Hönnu G. Sigurðardóttur á fónin hérna og ætla að skella mér með Vítt og breitt í baðið...

sunnudagur, 13. apríl 2008

Blóðbleyjur...

Það er hægt að kaupa konubleyjur í Super Drug í Sidcup, hahahha! Og þetta eru engar ömmubleyjur sko...
Mín vaknaði einsog stunginn grís í blóðpolli í gær (nema hvað grísinn hefði sennilega ekki vaknað...) og trítlaði beinustu leið útí næsta apótek. Þar sem ég stend þar og er að virða fyrir mér varninginn verður mér starsýnt á risastóran Uber Duber Ultradömubindapakka með mynd af afar lögulegum kvenmannsbotni í ansi gerðarlegum hvítum nærbuxum. Haldiði ekki að í pakkanum séu þá heilar nærbuxur, með innbyggðu dömubindi sem kona smeygir sér í og fleygir svo bara þegar hreinlætið krefur. Ég athugaði nú ekki úr hvurs konar efni þessar buxur eru en mun gera það að verkefni næstu viku og læt ykkur svo vita. Ég treysti mér ekki alveg í buxurnar og keypti mér bara þetta venjulega, bleyjufílingurinn gæti orðið sjálfsvirðingunni yfirsterkari.

Ætli þær séu til í extra-large?...

Óalkóhólismi

Í leiðindum mínum yfir því að vera komin aftur heim í Sjittarann frá hinni fögru Montpellier datt mér ekkert annað í hug að gera í hausinn minn en að drekka áfengi. Svo ég gerði það. Ég hellti hvítvínsdreytli í glas í gæreftirmiðdag og dreypti á því þar sem ég sat með sudoku í skautinu á náttfötunum uppi í rúmi. Svo kom Tinna heim svo ég skenkti henni í glas og í leiðindum okkar ákváðum við að stúta Opalpelanum hennar yfir klassamyndinni Becoming Jane... 1 og hálfri klst. síðar hafði okkur ekki tekist betur upp en svo að enn var 7/8 af Opalnum eftir, mér var farið að leiðast þófið og fór að sofa.
Ég held ég verði aldrei alkóhólisti...

laugardagur, 12. apríl 2008

Bloggorðin 10

1.Þú skalt ekki önnur blogg hafa
2.Þú skalt ekki skrifa neitt sem móðir yðar má ekki lesa
3.Þú skalt ekki skrifa um ástarmál þín
4.Þú skalt ekki skrifa um kúk og piss (kúkur piss hehe...)
5.Þú skalt ekki níða skóinn af öðrum
6.Þú skalt ekki heiðra skoðanir annarra
7.Þú skalt ekki rita það er yður félli eigi í geð að ritað væri um yður
8.Þú skalt ekki girnast blogg náunga þíns
9.Þú skalt ekki girnast kaffikvörn náunga þíns, Neil Diamond safnið, ferskjulitað sófasettið, tíglasokkana, glansandi pinnahælana, sólbrúnkuna, allar þessar bissnessferðir hans, sílíkonbrosið og þessar endalausu viðreynslur... né neitt annað sem náungi þinn á.
10.Þú skalt ekki samviskubit yfir því hafa að blogga alltof sjaldan.