föstudagur, 25. júlí 2008

Dagur og vegur í frjálsu landi

Alheimurinn er aftur orðinn minn. Í þessu hléi mínu frá ástþyrstum gamalmennum og lesblindum börnum hef ég aftur ritstörf mín á þetta alþjóðasvæði. Íslenska fjallaloftið hefur gert mér mikið gott og er ég nú öll að fríkka og andinn laugar sig í frelsi íslenska vindsins. Já já. Martraðakenndar hugsanir skjótast upp í kollinn stöku sinnum, hugsanir um krákur, flapjakka, enska prinsa, hnífstungur, magaboli og alla þá dýrð aðra er einkennir vetursetu mína. Í örvæntingu minni reyni ég af bestu geta að bægja þessum óboðnu gestum frá, hunsa framtíðina og einbeita mér að ísbjarnadrápum, Héðinsfjarðargöngum, Guðrúnu frá Lundi, jeppaeign og öðrum indælum hlutum.