laugardagur, 29. nóvember 2008

Sælar verið þið allar góðar vættir.
Nú er ég um það bil að leggja í lítinn verslunarleiðangur í nágrannasveitarfélagið. Þar hyggst ég festa kaup á hvítri skyrtu og pilsi eða buxum í formlegum stíl. Það er ekki laust við að setjist að mér hrollur; iðulega þegar ég er stödd í mátunarklefum Mammons, og skiptir þá engu hvort ég hafi lagt upp með jákvætt hugarfar eða ekki, kemst ég aldrei hjá því að líða einsog skrokkurinn á mér sé bæklaður. Yfirleitt kaupi ég því ekki neitt (nema kannski sokka og nærbuxur) og skríð út með afsökunarblik í augunum yfir því hvað ég sé ógeðsleg. En nú, góðu gestir, liggur mikið við því ég þarf að finna klæðnað fyrir sýningarnar í næstu viku og þar sem í árganginum finnst engin stúlka af minni stærðargráðu ætla ég að skunda inn í Primark, fleygja af mér kápunni, ráðast á fatarekkana einsog gráðugt dýr, máta allar þær tuskur sem ég næ í, rífa og tæta þær helvítis flíkur sem komast ekki yfir mjaðmirnar á mér og öskra með efnistætlurnar í tönnunum: TIL HELVÍTIS MEÐ HIÐ STAÐLAÐA SNIÐ!!! Hlaupa svo alsber fram í búð með mínípils á hausnum og fokking rústa pleisinu... uh, já einmitt, það ætla ég að gera. Jæja, það er best að ég raki mig undir höndunum fyrst.
Ef ég skrifa ekkert næstu viku þá hef ég sennilega verið handtekin. Bæ bæ.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Halló

Sunnudagurinn hér á sambýlinu Grund hefur að mestu farið í iðjuþjálfun. Sumir hafa verið að lita, aðrir að mála og enn aðrir að horfa á sjónvarpsþætti í tölvunni sinni. Það eru vandræðagemlingarnir sem vilja ekki vera með hinum í föndrinu. Bless bless!

Vöruskortur á Bretlandseyjum

Hér sé Guð!
Ég fór út í búð í þeirri veiku von um að þar gæti ég fest kaup á kaffifilterum. Í kaffihillunni sem er vandlega kaffærð í þúsundum tegunda telaufa og instanskaffikorna var þá hins vegar hvergi að finna. Í staðinn keypti ég efnisgóðan eldhúspappír þar sem búið var að hella upp á öll blöðin úr síðustu rúllu. Mér segist svo hugur að kaffifilterasendingin sem var pöntuð þarna 2003 hafi klárast í nóvember í fyrra þegar ég keypti síðasta pakkann.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Gömul tilvitnun

Á þriðjudaginn stóð ég á miðju sviði hringleikahúss skólans og básúnaði: "What we face today is not a crisis of Capitalism, but of Socialism." Hahaha! Brandari í boði ræðuritara Möggu Thatch.

Virðingarleysi...???

Siðferðisþröskuldur íslenzku þjóðarinnar fer lækkandi! Samkvæmt viðtali Gísla Einarssonar við Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, í kvöldfréttum Rásar 1 í gærkvöldi má einkum greina þetta siðferðisfall á ólátum almennings við Alþingishúsið. Hinn sauðsvarti almúgi hópaðist þar að til mótmæla; eggjum, tómötum og skyri var grýtt í húsið og guli grísfáninn var dreginn að húni eitt andartak. Einsog allir vita snýst siðferði og gildismat einkum um hið efnislega (svo sem grjótveggi, egg og efnistuskur) en ekki um rafræna sýndartölustafi og tilfærslu þeirra í sýndarheimi tölvukerfa, afneitun og ábyrgðarleysi. Virðulegi almenningur: "How very dare you?!"

föstudagur, 7. nóvember 2008

Af gömlum siðum og nýjum

Halló. Í dag sat ég yfir enn einum fyrirlestrinum á hversu viðbjóðsleg kynfæri kvenna eru. Ég var líka spottuð óþarflega mikið fyrir að hafa gert mér dælt við ungan mann á skemmtan um helgina. Ég íhugaði meira að segja að biðjast afsökunar á framferði mínu... Mér finnst stundum einsog hlutirnir séu ekki alveg einsog þeir ættu að vera. Mamma, þú hebbðir átt að taka þér tvo frídaga þarna '75.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Mannréttindi ofalinnar kynslóðar

Mér finnst áhugavert að núna þegar samfélag stendur hugsanlega (vonandi) á tímamótum varðandi gerð sína og þegnar þess yfir og undir miðjum aldri fyllast reiði vegna spillingar og annars óréttlætis í þeirra garð þá hafa jafnaldrar mínir mestar áhyggjur af því að geta ekki sér að kostnaðarlausu horft á bandaríska skemmtiþætti í sjónvarpinu.

Kamúflasj

Þetta var nú meiri ósvífni hérna fyrr í dag kæru vinir. Ég bið ykkur að afsaka. Ég ætti nú heldur að reyna að vera pínulítið skemmtileg. Jæja, ég get sagt ykkur það að í fyrradag sá ég pöddu sem leit út einsog hluti af trjágrein. Ég get svo svarið það! Ég hélt ég væri bara komin inn í heimildamynd eftir David Attenborough en hvert sem ég leit sá ég karlinn hvergi, aðeins gáttaða sambýlinga mína sem stóðu með mér í andyri fjölbýlishússins og göptu. Nei, þetta var nú ekki alveg svona spennandi en, engu að síður, það skemmtilegasta sem komið hefur fyrir mig eftir að ég steig fæti á keltneska, eða sexneska eða hvaða nú annars er, jörð.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

XXX

Kvenleikinn er ekki gefins, hann fylgir ekki kyninu. Það þarf að læra hann, þjálfa sig í honum, sennilega alast upp í honum líka en það er ekki nóg. Það þarf að kaupa sér hann, klæða sig í hann, setja hann á sig, jafnvel sprauta honum í sig, skera sig upp til þess að koma honum fyrir. En þetta vitum við jú öll, er það ekki?

Ef þú klæðist víðum gallabuxum og ert ekki grönn þá ertu samkynhneigð.
Ef þú málar þig ekki á hverjum degi þá ertu samkynhneigð.
Ef þú flissar ekki og skríkir og fleygir þér í fang stráklinga þá ertu samkynhneigð.
Ef þú berð kynjaréttindi fyrir brjósti á óáberandi hátt þá ertu samkynhneigð.
Ef þú býrð yfir einhvers konar gáfum þá ertu ógnun við Mannkynið og hlýtur að vera samkynhneigð.

Konur eru ekki fyndnar.
Gaurar eru fyndnir.
Grínþættir sem gaurar semja og eru í eru fyndnir og ef þér finnst það ekki ertu leiðinleg.

Takk fyrir kosningaréttinn, takk fyrir menntaveginn, takk fyrir hið opinbera líf.