sunnudagur, 29. júní 2008

Laugardagurinn tuttugastiogáttundi júní tvöþúsundogátta

Hæ. Í dag vaknaði ég klukkan eitt og fékk mér morgunmat. Svo fórum við mamma til London og fórum í stóra bókabúð og mamma keypti eina ferðabók og eina kortabók. Svo fórum við á markað á Piccadilly, sko götunni en ekki torginu, og þar sáum við mikið af flottu dóti. Svo keyptum við okkur nesti á kaffi Neró og fórum með það í Hyde Park. Síðan löbbuðum við lengi um Hyde Park garðinn og sáum dúfur og íkorna og fullt af konum í búrkum. Það var gaman. Svo löbbuðum við niður alla Sloangötu, alveg niður að Sloan square sem er sko torg og þar er rosalega mikið af flottum búðum einsog Gucci og Dolce og Gabbana og dyravörðum í kjólfötum í búðunum sem opna dyrnar fyrir fólkinu. Svo tókum við mamma tubið sem er sko neðanjarðarlestin 4 stöðvar til Embankment og þar fórum við á ítalskan veitingastað sem heitir La Piazza og fengum okkur pitsu. Mín var með reyktum laxi og klettasalati en mamma fékk pitsu með kjúklingi og sveppum. Svo fórum við heim. Bæ.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Carmen í kjörklefanum

Það er kominn júní tralalalala! Fyrir löngu síðan tralalalala!
Þið sem ætla að stelast á Hala án mín skemmtið ykkur vel. Ég vona að þið fáið gott veður. Hér er einnig ágætis veður og hljóðar spáin fyrir morgundaginn einhvern veginn svona: Sólskin með hléum, 20°c (12°c að næturlagi), vestanvindur; 15 mílur á klukkustund, rakastig 37. Þarna hafiði það.
Ég er að hlusta á Söngvaseið. Söngkennarinn minn vill að ég einbeiti mér að söngleikjalögum sömdum á árunum frá 1920-1960. Ég á með öðrum orðum að hætta að vera asnaleg og byrja að vera sæt. Það ætti ekki að vera vandkvæðum bundið þar sem ég er afar lagleg í grunninn. Ég ætla að redda mér Carmen-rúllusetti og fölbleikum varalit og þá get ég byrjað að vera dálítið eðlileg einsog stúlkan sagði. En ég get nú sagt ykkur það að ég er komin yfir erfiðasta hjallin því ég er farin að ganga á hælháum skóm. Þetta er svona í bransanum sko, koma þarf að vera fær um ýmislegt. Hælaskórnir mínir eru 3cm háir og Áslaugu finnst ég vera einsog belja í þeim, en hún getur nú líka bara.... tekið þau ummæli aftur þegar hún sér mig stræda um í karekterskónum.
Með allan þennan líka fína tilbúna kvenleika í farteskinu óska ég ykkur, mannkyninu öllu, til hamingju með daginn sem byrjar eftir 56 mínútur. Lifi kosningarétturinn!

mánudagur, 9. júní 2008

Framtíðardraumar

Ég get sko sagt ykkur það, kæru landsmenn, að hér á Englandi eru sjálfsalar í sumum matvöruverslunum. Þetta er svo móðins hérna að ekki er nóg með það að hægt sé að lána sjálfum sér bókasafnsbækur einsog ýmis mæt bókasöfn föðurlandsins hafa að vísu tileinkað sér heldur fær maður sjáfur að tína plastklædd matvæli uppúr körfunni sinni (bara fyrir körfufólk) og láta sjálfsalann segja "bíb" við þau áður en maður síðan stingur þeim ofan í plastpoka. Þetta kalla ég módern.
Nú veit ég ekki hversu mörg ykkar muna eftir vigtunum góðu í ávaxta & grænmetisdeildum stórmarkaðanna hérna í denn. Mér er að minnsta kosti í fersku minni spennan sem skapaðist í barnshjartanu mínu þegar innkaupakarfan með mömmu aftaní nálgaðist grænmetið, óvissan um hvort grænmeti yrði yfir höfuð keypt þann daginn, léttirinn þegar Hófí systir var ekki með og ég, tatata...stóð ein að takkaborði grænmetisvigtarinnar! Meðan mamma týndi gulu eplin til í poka stóð ég hjá einsog gammur, tilbúin að hrifsa af henni pokann og skellonum á vigtina. Ef Hófí var með í för var um að gera að vera snögg og finna fokking gulueplatakkann áður en neglurnar á Hófí komust í hann...minn poki, minn takki!
Úff, sorrý hvað ég varð spennt yfir þessu, en sum sé: sjálfsalarnir í Mark's & Spencer og félögum gera það sama fyrir mig og vigtin í grænmetinu forðum daga; þeir láta mér líða einsog ég hafi tilgang, einsog ég sé einhver. Þeir láta mér líða einsog ég sé BÚÐARKONA.