þriðjudagur, 21. október 2008

Jóla jóla...

Ó nei! Það er ófremdarástand í íslenzkri verzlun. Það fæst ekki gjaldeyrir til kaupa á jóladrasli frá Suð-austur Asíu. Haft er eftir verslunarstjórum að það verði VÖRUSKORTUR fyrir jólin. Ég skal leggja mitt af mörkum og senda þeim foreldrum sem ég þekki jóladót til að lauma í skóinn. Ja, hver fer nú að kaupa geit handa einhverjum afrískum greyjum meðan við höfum það svona skítt!

þriðjudagur, 7. október 2008

Neyðarkall!!!

Félagar, það er á ögurstundu sem þessari sem ég leita til ykkar. Okkar sambönd hafa, einsog önnur, verið upp og ofan. Samskiptin hafa verið mismikil og skoðanir skiptar. En eitt höfum við þó átt, og það er vinátta. Við höfum hjálpast að, rétt hvert annað við og stappað í hvert annað stálinu. Því er það nú að ég leita til ykkar, kæru vinir, eftir stuðningi. Þegar hart er í ári leita vinir jú hver til annars. Þegar kuldinn sækir að þjappar fólk sér saman og veitir hvert öðru yl. Þegar á móti blæs tökum við höndum saman og berjumst gegn storminum. Í ljósi fjárhagsörðugleika þjóðar vorrar kreppir skóinn að hjá okkur sem erlendis dveljum. Skólavist okkar er í hættu vegna gengishruns undanfarinna daga svo og framtíð okkar öll. Því er svo komið að við sambýliskona mín óttumst um búsetu okkar. Það er að hennar áeggjan sem ég teygi hönd mína út til ykkar nú og bið um aðstoð. Til að gera okkur kleyft að dveljast á heimili okkar hér í Lundúnum vantar mig mann sem vill gangast við mér, deila með mér rúmi og okkur tveimur íbúð og greiða þar með þriðjung leigukostnaðarins. Félagar, ég geri mér grein fyrir því að þessa bón er ekki auðsótt að uppfylla. Ég geri mér grein fyrir því að mikla fórnfýsi þarf til að slíta sig úr faðmi fjölskyldunnar heima á Íslandi og flytja landa á milli. En ég geri mér líka grein fyrir því að ávinningurinn mun ekki standa fórninni að baki. Félagar, mig vantar neyðarkarl!

sunnudagur, 5. október 2008

Lífsins lystisemdir

Pjúff!... ég hef aðeins róast síðan á föstudaginn. Pantaði næstum því pitsu og allt. En hvað um það. Kaffi og pönnsur, Stefán Íslandi, Þingvellir uppi á vegg og krossorðaspilið loksins komið í notkun... er eitthvað meira sunnudags? Við fengum meira að segja gesti og áttum kók og smákökur handa þeim. Það þarf sérstaka gráðu til að fá viðurnefnið "ömmurnar"...

föstudagur, 3. október 2008

Slíðrum ei sverðin!

Kæru Íslendingar! Stund austurfarar er runnin upp. Pakkið saman þeim föggum ykkar sem þið komið ekki í verð, rifjið upp dönsku sagnbeygingarnar og húkkið ykkur far austur á Seyðisfjörð því skipið er að leggja frá bryggju. Tíminn er komin er við, hraustmenni norðursins, leggjumst í víking á ný, nemum ný hálendi á gengisbetri slóðum og byggjum upp skandinavískt samfélag jafnaðar og bræðralags. Lengi lifi Noregur! ....sorrí, missti mig aðeins þarna. En allana, þá var ég að skylmast með sverði í skólanum um daginn. Ógisslea kúl!

Ludvigs Davids

Ég hef átt við bloggstíflu að stríða undanfarið. Hef setið með tölvugreyið í kjöltunni með autt sýndarblað fyrir framan mig og starað nautheimskum augum inn í hvítuna. Vandamálið er að ég hef verið svo fjandi jákvæð síðustu daga og vikur. Þetta nær engri átt. Hvurnin í andskotanum á manni að blása í brjóst ef maður er hamingjusamur? Það er bara ekki hægt. Ef eitthvert skáld andmælir þeirri staðhæfingu er næsta víst að þar sé leirskáld mikið á ferð. Já! En ég hef sum sagt verið svona fjandi ánægð með lífið og tilveruna, allt verið í stakasta lagi enda ekki annað hægt þegar maður er kominn á bleikar pillur í stað hvítra. Það gefur auga leið að þær virka miklu betur. Nú hafa borðin hins vegar snúist (djók! þetter enskt orðatiltæki þúst)...nú hefur dæmið hins vegar snúist við vegna kreppunnar ógurlegu, sem er skal ég segja ykkur Íslandsbúar, raunveruleg kreppa fyrir okkur landflótta aumingjana. Skólagjöldin eru komin upp í tæpar 2 millur árið, leigan hækkað um 20 þúsund kall og ekki einu sinni hægt að fá kaffibæti lengur. Svei mér þá!

Endur

Hægan hægan. Listin ku aldrei blómstra meir en á tímum fjárhagsþrengsla. Ég á því von á að andi minn rísi úr viðjum slens og transfitusýra, vaxi og dafni innan um íslensku meðbræður sína, (veit ekki hvort andar hafi þjóðerni, ég held að passinn minn sé stílaður á skrokkinn) nærist á lofti, kölkuðu vatni og hafragraut þangað til hann nær fullkomnun sinni. Já, kæru vinir, við skulum ekki örvænta. Af fjárhagskreppum getur aðeins hlotist eitt: andlegur þroski.... Þetta er í rauninni allt svo fallegt... Díses, ég er farin að horfá OC.

Skórinn sem kreppti að...

Undanfarna daga hef ég verið að stúdera ræður og ræðutækni í minni miklu akademíu. Hvaða tækni nota leiðtogarnir til að sannfæra líðinn? Hvernig haga þeir orðum sínum til þess að róa almúgann? Hvernig vinna þeir traust okkar? Mér varð því heldur betur bruggðið í morgun, eftir að hafa dröslað tölvunni í gang til þess að hlusta á morgunútvarp Rúbbans, við að heyra upptöku af Haardinum, okkar mikla leiðtoga, frá því í gær þar sem hann með djúpri, áhyggjuþrunginni en stillilegri rödd fullvissaði þjóð sína um að þetta yrði allt í lagi. Pásur á stöku stað til að gefa orðunum meira vægi, hrynjandi, ryþmi; ÉG KANN ÞETTA ALLT GEIR!!!! Það var á þessu augnabliki sem ég hrifsaðist úr svefnrofunum, það var þá fyrst sem ég áttaði mig á ástandinu: ÞAÐ ER KOMIN KREPPAAAA!!! FOOOOOOKKKKKKKK! .... ég á eftir að breyta íslensku dótapeningunum mínum í hið þunga breska pund....