þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Afmælismorgunn.

Þegar ég vaknaði áðan tók ég eftir því að náttbuxurnar mínar voru orðnar alltof síðar á mig, nefið hafði stækkað og brjóstin farin að lafa niður á miðjan maga (annað auðvitað ívið síðara). Þetta er aldurinn: maður er farinn að falla saman...

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Úr fallegusu ófærð sem um getur...

Í gluggakistunni minni stendur gula krísan sem ég fékk hjá Morranum í gær en fyrir utan glerið kyngir snjónum niður. Viðeigandi veðurfar í upphafi febrúarmánaðar; í stíl við hárlit fyrsta kvenforsætisráðherra Íslendinga. Samgöngur stórborgarinnar Lundúna liggja niðri vegna snjókornanna og samfélagið er lamað. Skólar eru lokaðir (þ.a.m. skólinn minn) og krakkar á öllum aldri nota tækifærið og fara í snjókast, búa til snjókarla og renna sér á snjóþotum í almenningsgörðum. Ekki illa farið með tímann það. Heima í Julian Court 8 situr Pollíanna á gólfinu og blótar helvítis hugmynda- og aðgerðaleysinu; blótar hinu stirða enska kerfi sem einkennist af fyrirmannalegum tepruskap regluverksins. Ýmsar getgátur voru uppi í morgun vegna lokun skólans: Frosið í klósettlögnum og þess vegna striði gegn "Health & Safety" að hafa opið, ekki nægilegt starfsfólk mætt í skólann til að uppfylla "Health & Safety"-kvótann og sitthvað fleira tengt hinni frægu "Health & Safety" löggjöf. Löggjöf þessi er einmitt helsti óvinur leikhússfólks á stundum. Í liðinni viku komst leikhópurinn minn að því að ekki væri heimilt að reykja á sviðinu fyrr en á sýningu. Reyklausi leikarinn verður bara að improvisa á frumsýningu og leikhópurinn á á hættu að fá í sig brunagöt í kúldurreykingasenunni þar sem ekki má æfa hvenær og hvernig á að drepa í vindlingunum. "Health & Safety" hefur eitthvað skrifað yfir sig þarna. Jæja, en það þótti ekkert vandamál að æfa senuna þega ég ber logand ruslatunnuna inn á sviðið... heyr á endemi!
Óvíst er um morgundaginn en ef heldur áfram að snjóa gæti farið illa fyrir sýningunum okkar, við orðið innlyksa í Sidcup og snjókarlar tekið England yfir.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Brot úr mannkynssögunni

Grænir páfagaukar flögra yfir Sidcup og eldar brenna á Austurvelli. Viðskiptaráðherra segir af sér og lögreglan heldur upp á 60 ára afmæli NATO-mótmælanna 1949 með því að endurtaka leikinn. Hið ótrúlega getur gerst, óvæntir atburðir í hversdagslegu samhengi, hversdagslegir atburðir í undarlegum ramma. Verfremdungeffekt. Grænu gaukarnir í Sidcup koma vel undan vetri; þeir virðast sprækir þar sem þeir skoppa milli húsþaka og syngja ótímabæran óð til vorsins, en þeir vita auðvitað hvað þeir syngja: í Sidcup vetrar ekki nema í sálum innflytjendanna. Barnshafandi kona selur tímarit heimilislausra og hefur ekki efni á læknisaðstoð og fátækir námsmenn kneyfa öl og borða pizzur á krám bæjarins. Leitin að góðu sálinni í Sesúan heldur áfram; hún finnst en er fórnað á altari þægindanna: aflátsbréf valdasjúkra guða. Hún er skilin eftir á jörðinni þar sem góðsemi hennar mun ganga af henni dauðri, að öðrum kosti engist hún í líflöngum hreinsunareldi samviskunnar. Siðferði hennar fellur ekki inn í kerfið sem heimurinn gengur fyrir þá stundina, kerfið sem hvetur einstaklinginn til að hrifsa en "Hönd sem teygir sig fram, gefur og tekur auðveldlega. Það að hrifsa þarfnast áreynslu." 70 ára gamall texti, að minnsta kosti 2000 ára gömul vitneskja. En hið óvænta gerist og hlutirnir breytast svo lengi sem fólkið ber á bumbur, kveikir elda og er með vesen þá...

"You write the happy ending to the play."
Bertold Brecht: The Good Soul Of Szechuan (Santa Monica útgáfan)

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Borgaraleg temja og ótemja

Það er vissulega obbolega erfitt fyrir fjórða valdið að halda hutleysi í umfjöllun sinni um það sem gerist í samfélagi mannanna. Almúgi einsog ég getur rétt ímyndað sér að snúið geti reynst að finna hin réttu hlutföll milli fréttaflutnings og þess sem gerist í reynd í hinum stóra heimi (sem er auðvitað ekki hægt vegna afstæðis þessara hlutfalla). Hvernig væri samt, ef maður ætlar að vera fjölmiðamaður á annað borð, að kommenta ekki á aðtburði sem maður er að flytja fréttir af. Hér eru nokkrar beinar tilvitnanir úr sjónvarpsfréttum RÚV þann 22.janúar í umfjöllun þeirra um mótmæli gegn ríkisstjórninni á Austurvelli og fyrir framan Stjórnarráðið:

"Sami gamli hávaðinn."
"Samskipti mótmælenda og lögregu mun vinsamlegri og er það mjög góð tilbreyting."
""Þurfti" lögregla að beyta táragasi."
"Þetta eru ekki skemmtilegar myndir."

Voru ekki einhvern tímann til siðalög í blaðamannafélaginu?

Hefur fjölmiðlafólk aldrei heyrt um borgaralega óhlýðni?
Að dangla í skyldi löggæslumanna telst ekki ofbeldi síðast þegar ég vissi. Það kallast borgaraleg óhlýðni. Dangl á plastskjöld er ekki lögbrot en það væri kannski hægt að troða lagabreytingu í gegnum þingið sem bannaði það. Að minnsta kosti virðist vera réttlætanlegt að beita plastskjaldadanglara ofbeldi í formi táragassúðunar.
Nú ef ekki má stunda borgaralega óhlýðni, hvað er þá eftir? Að afsala sér íslenskum ríkisborgararétti og gerast pólitískur flóttamaður?

Lifi byltingin félagar!
Yfir og út

mánudagur, 19. janúar 2009

Bla bla bla, bla bla bla bla, bla bla

Óttalega er nú alltaf leiðinlegt að heyra af eða í (ég tala nú ekki um að sjá) okkar elskulega yfirmann Bjössa B. Óttalegur azni kallinn. Er hægt að handtaka mig fyrir að láta svona ummæli um "æðstu ráðamenn landsins" frá mér fara? Beiðist svara löglærðra. Það væri gaman að endurheimta þvílíka virðingu fyrir yfirvaldinu í dómskerfið að manni væri stungið inn og og þvælt til annarra landa og allthvaðeina einsog Jóni Hreggviðsyni forðum hebbði hann verið til. En hvað um það. Mér hefur loksins tekist óætlunarverk mitt að læra ensku. Gerði það í síðustu viku. Datt svo bara í það með táningsbekkjafélögum mínum (agalega sætir orðnir þessir '89 (!!!)), breyst í níræðan karl í ca. klst. á dag, bölvað bæjarfélaginu mínu núverandi fyrir skort á stílabóksölum, dáðst að Múmíndótinu sem Hófí gaf mér í jólagjöf, hlustað á Gilligill sem er besta plata í heimi, baðað mig og drukkið appelsínusafa (ekki í sömu mund), uppgötvað að það býr BOLABÍTUR í Sidcup!!! Hef ekki náð tali af honum og veit því ekki hvort hann er nýfluttur í bæinn, en hann er alltaf með einhverja konu með sér, og tja, hugsað um fallvaltleika heimsins eða, þúst eikkvað.

mánudagur, 29. desember 2008

Úrlausn allra mála

Hvernig væri að gera Pál Skúlason að einræðisherra yfir Íslandi?

þriðjudagur, 23. desember 2008

Kjams kjams

Þolláksmessa. Mamma laggði blátt bann við skötuheimsókn í kvöld en hefur boðið vel söltuðum þorski í staðinn og hamsatólg með honum. Vei! :)