sunnudagur, 25. janúar 2009

Brot úr mannkynssögunni

Grænir páfagaukar flögra yfir Sidcup og eldar brenna á Austurvelli. Viðskiptaráðherra segir af sér og lögreglan heldur upp á 60 ára afmæli NATO-mótmælanna 1949 með því að endurtaka leikinn. Hið ótrúlega getur gerst, óvæntir atburðir í hversdagslegu samhengi, hversdagslegir atburðir í undarlegum ramma. Verfremdungeffekt. Grænu gaukarnir í Sidcup koma vel undan vetri; þeir virðast sprækir þar sem þeir skoppa milli húsþaka og syngja ótímabæran óð til vorsins, en þeir vita auðvitað hvað þeir syngja: í Sidcup vetrar ekki nema í sálum innflytjendanna. Barnshafandi kona selur tímarit heimilislausra og hefur ekki efni á læknisaðstoð og fátækir námsmenn kneyfa öl og borða pizzur á krám bæjarins. Leitin að góðu sálinni í Sesúan heldur áfram; hún finnst en er fórnað á altari þægindanna: aflátsbréf valdasjúkra guða. Hún er skilin eftir á jörðinni þar sem góðsemi hennar mun ganga af henni dauðri, að öðrum kosti engist hún í líflöngum hreinsunareldi samviskunnar. Siðferði hennar fellur ekki inn í kerfið sem heimurinn gengur fyrir þá stundina, kerfið sem hvetur einstaklinginn til að hrifsa en "Hönd sem teygir sig fram, gefur og tekur auðveldlega. Það að hrifsa þarfnast áreynslu." 70 ára gamall texti, að minnsta kosti 2000 ára gömul vitneskja. En hið óvænta gerist og hlutirnir breytast svo lengi sem fólkið ber á bumbur, kveikir elda og er með vesen þá...

"You write the happy ending to the play."
Bertold Brecht: The Good Soul Of Szechuan (Santa Monica útgáfan)

3 ummæli:

Hofi :) sagði...

Vá, þú ert orðin svo djúp Gudda mín að stóra systur skilur þig barasta ekki lengur ;) Það er a.m.k. nokkuð ljóst að maður þyrfti helst að glugga í leikrit Brechts til að komast til botns í færslunni...

Nafnlaus sagði...

úffpúff

Nafnlaus sagði...

... þá lifir vonin!